Starfsmat

Hlutverk starfsmatsins

Starfsmat er: 

  • aðferð til að leggja samræmt mat á ólík störf
  • aðferð til að gera forsendur launaákvarðana sýnilegri
  • aðferð til þess að gera rökin á bak við launaákvarðanir skýrari
  • leið til að ákvarða sömu laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf

Starfsmatskerfið er greiningartæki sem er notað til að meta með kerfisbundnum hætti þær kröfur sem störf gera til starfsmanna. Kerfið byggir á hlutlægum viðmiðum sem notuð eru til að bera saman störf í samræmi við þær kröfur sem í störfunum felast, óháð hæfni þeirra sem þau vinna. 

Markmið starfsmats er að tryggja að starfsmönnum séu ákvörðuð laun með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og hægt er og á að leiða til þess að störfum sé raðað þannig til grunnlauna að þau séu hin sömu fyrir störf sem metin eru jafnkrefjandi, óháð starfsstöðum, stéttarfélagi eða kyni. 

Starfsmat er ekki:

  • mat á persónulegri hæfni starfsmanna í starfi
  • mat á árangri starfsmanna í starfi
  • mat á frammistöðu starfsmanna í starfi

Mikilvægt er að hafa í huga að starfsmat metur aðeins grunnkröfur til starfa en ekki einstaklingsbundna hæfni starfsmanna.  Með öðrum orðum þá er lagt mat á það hvaða kröfur eru gerðar til starfsmanns í tilteknu starfi.  Ekki er lagt mat á einstaklingsbundna hæfni jafnvel þó umfram hæfni eða hæfileikar hafi bein eða óbein áhrif á frammistöðu í starfi.