Starfsmat

Uppbygging starfsmatskerfisins

Starfsmatinu er skipt niður í fjóra meginþætti og alls þrettán undirþætti. 

I. Þekking og færni (38,4%)

1. Þekking og reynsla: Í þessum þætti er metið hvers konar, og hversu mikillar, þekkingar og reynslu er krafist í starfið. Þekkingin getur falist í starfs- eða stjórnunarreynslu, námskeiðum eða formlegu námi.

2. Hugræn færni: Hér er átt við kröfur um færni til að þróa, greina og leysa vandamál og leggja mat á viðfangsefni hverju sinni. Einnig er metið hvort starfsmaður vinnur við skipulags- eða áætlunargerð eða að sköpun eða greiningarvinnu og hvort sú vinna tengist hönnun, samskiptum við fólk eða stefnumótun.

3. Samskiptafærni: Í þessum þætti er metið hvaða kröfur starfið gerir til samskiptafærni og tilganginn að baki kröfunum; t.d. hvort farið sé fram á samskiptafærni vegna umönnunar, kennslu, þjálfunar eða leiðsagnar, fyrirlestra- eða námskeiðahalds, upplýsingaöflunar, viðtala, samstarfs við aðra, hvatningar og formlegrar ráðgjafar eða hvort starfsmaður þurfi að beita samninga- eða sannfæringartækni.

4. Líkamleg færni: Í þessum þætti er metið hvort verkefni starfsins krefjist einhverrar sérstakrar líkamlegrar færni umfram það sem venjulegt er. Hér t.d. átt við handlagni, fingrafimi, samhæfingu augna og handa og samhæfingu skynfæra. Hér er metið hvort starfsmaður þurfi t.d. að stjórna bifreið eða öðrum farartækjum, nota lyklaborð eða önnur tæki og verkfæri og hversu mikla færni m.t.t. nákvæmni og hraða þarf til þessara verka.

II. Álag (25,4%)

5. Frumkvæði og sjálfstæði: Hér er metið hvort og þá hversu miklar kröfur eru gerðar um frumkvæði og sjálfstæði í starfi og að hversu miklu leyti sjálfstæði í starfi takmarkast af verklags- eða vinnureglum o.fl. Einnig hvaða kröfur eru gerðar á lausn óvæntra eða ófyrirsjáanlegra vandamála, hvort gerðar séu kröfur til starfsmanns um lausn eða að hann leiti til næsta yfirmanns.

6. Líkamlegt álag: Í þessum þætti er lagt mat á líkamlegt erfiði í starfi, hvort starfsmaður þurfi úthald og líkamlegan styrk til þess að sinna verkefnum starfsins og þá hversu oft og mikið reynir á slíkt.

7. Hugrænar kröfur: Í þessum þætti er verið að kanna kröfur um einbeitingu og aðgæslu í starfi, tíðni og tíma. Einnig álag sem tengist starfinu og skapast af ólíkum kröfum til starfsmanns.

8. Tilfinningalegt álag: Í þessum þætti er metið hvort eðli starfsins, eða það fólk sem starfsmaður á í samskiptum við, valdi starfsmanninum sérstöku tilfinningalegu álagi og hversu oft. Forsenda starfstengds tilfinningalegs álags er að starfið sé þess eðlis að starfsmaður þurfi að eiga aðild að málefnum viðkomandi eða þjónusta fólk yfir ákveðið tímabil. 

III. Ábyrgð (31,2%)

9. Ábyrgð á velferð fólks: Í þessum þætti er metið hvort í starfinu felist ábyrgð á velferð fólks. Metin er sú ábyrgð sem starfsmaður ber á einstaklingum eða hópum (almenningi, þjónustuþegum og/eða viðskiptavinum) öðrum en starfsfólki undir verkstjórn eða stjórna starfsmanns

10. Ábyrgð á stjórnun: Í þessum þætti er metin ábyrgð starfsmanns á mannauðsstjórnun, verkstjórn, vinnuskipulagi og skiptingu verkefna, auk ábyrgðar hans á eftirliti, þjálfun, leiðsögn, þróun og mati á störfum annarra. Metin er sú ábyrgð sem starfsmaður ber á vinnu annarra; þ.e. þeirra sem hann hefur formlega umsjón með og ber ábyrgð á, s.s. að ráða starfsmenn, veita hvatningu og móta starfsmannastefnu. Metið er í hverju ábyrgðin er fólgin fremur en að skoða fjölda þeirra sem starfsmaður ber ábyrgð á. Einnig er metið hvort starfsmaður ber ábyrgðina einn eða með öðrum. Þá skal meta ábyrgð starfsmanns í ráðgjöf, stefnumótun og/eða rannsóknum í málaflokknum.

11. Ábyrgð á fjármunum: Í þessum þætti er metin ábyrgð starfsmanns á fjármunum og hvert sé umfang þeirrar fjárhagslegu ábyrgðar. Hér er verið að kanna beina ábyrgð á fjármunum, s.s. reiðufé, beiðnum, ávísunum, reikningsfærslum, rafrænum bankafærslum, reikningum, fjárhagsáætlunum, tekjum og gjöldum.

12. Ábyrgð á eignum og upplýsingum: Í þessum þætti er metin bein ábyrgð sem starfsmaður ber á búnaði, s.s. hugbúnaði, upplýsingakerfum, gögnum eða skjölum, verkfærum, tækjum og vélum, vörubirgðum, byggingum, mannvirkjum, landareignum og öðrum svæðum og/eða persónulegum eigum annarra.

IV. Vinnuaðstæður (5%)

13. Vinnuaðstæður: Hér eru metnar vinnuaðstæður sem geta talist óþægilegar, ónotalegar, ógeðfelldar eða hættulegar. Hér getur verið um að ræða óhreinindi, óeðlilega háan eða lágan hita, raka, hávaða, hristing, óþef, óhollustu af völdum manna- eða dýrasaurs, reyk o.fl. Einnig er metin hér hætta á misnotkun, ágengni og ofbeldi þar sem hætta er á að starfsmaður hljóti áverka af völdum annars fólks. Tekið er tillit til þess hversu oft starfsmaður þarf að vinna við slíkar aðstæður, hversu lengi og hvert sé eðli óþægindanna.

Hverjum undirþætti er skipt niður í 5 til 8 þrep en alls eru 77 þrep í kerfinu.  Þrepin eru notuð til þess að aðgreina mismunandi kröfur í starfi á hverjum þætti fyrir sig.  Eftir því sem kröfur í starfi aukast þeim hærra þrep er gefið á tilteknum þætti.  Hvert þrep gefur síðan tiltekinn stigafjölda og samanlögð stig á öllum þáttum gefa endanlega stigatölu fyrir tiltekið starf.